Á árunum 2018 til 2021 hafa áhrif plastúrgangs á malbik verið rannsökuð á Íslandi. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að plastið styrkir malbik og dregur úr myndun hjólfara. Úrgangsplastið kemur í staðinn fyrir nýframleitt plast sem hefur verið notað í malbik um allan heim frá því á níunda áratugnum og því verður ekki aukning á örplasti í umhverfinu. Notað er blandað plast sem annars yrði brennt erlendis til orkuframleiðslu, en endurvinnsla plastsins í malbik þykir umhverfislega betri kostur reiknað í CO2 ígildum.

Plast er efni sem búið er til úr lífrænum fjölliðum, getur tekið á sig fjölbreytta mynd, er létt og ódýrt. Á sama tíma er það hæg-niðurbrjótanlegt og megnið af því fær ekki viðeigandi úrgangsmeðhöndlun, yfirleitt vegna misbrests við söfnun. Magn óendurvinnanlegs blandaðs plastúrgangs er orðið vandamál á heimsvísu. Það safnast í sjó, á landi, er urðað og þegar það er brennt leysist m.a. koltvíoxíð og díoxín út í andrúmsloftið.

Hvað er hægt að gera?

Þegar plast er orðið að úrgangi þá er þörf á nýsköpun á sviði endurnotkunar á stórum skala, og ekki er hægt að neita því að malbik er algengt efni.

Markmið rannsóknarinnar var að finna nýstárlegar lausnir til styrkingar á bundnu slitlagi með úrgangsplasti. Með þessu móti er hægt að finna malbikslausn sem notast við úrgangs auðlindir sem styður við umhverfislegan- og efnahagslegan sparnað.

Hversu mikið plast er notað?

Um 8-16% af bikinnihaldi er skipt út fyrir plast. Það er að segja, ef blanda skal 10 kg af malbiki eru 40 til 80 g af plasti notað ef styrkja á malbikið. Plastið bráðnar saman við bikið og malbikið er eins þegar það er blandað, unnið og lagt út.

Notað var úrgangsplast safnað á endurvinnslustöðvum Sorpu á höfuðborgarsvæðinu, það forflokkað af ReSource International ehf. og þrifið og kurlað af Pure North Recycling í Hveragerði.

Vegur var lagður við móttöku- og flokkunarstöð Sorpu í Gufunesi

Tilraunavegur var lagður í Grafarvogi við Móttöku- og flokkunarstöð Sorpu í ágúst 2021. Colas lagði út malbik með og án úrgangsplasts, hlið við hlið og bíður nú þess að tíminn leiði í ljós þær niðurstöður sem fengnar voru á tilraunastofum Colas, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Malbikunarst öðvarinnar Höfða. Þær niðurstöður eru að viðbót úrgangsplasts í malbik dragi verulega úr hjólfaramyndun og auki styrk malbiksins.

Vegurinn er táknmynd hringrásarhagkerfisins og beinir auðlindum frá haugunum og aftur í notkun. Notkun plastsins styður einnig við innlenda endurvinnslu og dregur úr útflutningi úrgangs. Eflum endurvinnslu innanlands, stuðlum að sjálfbærri auðlindanýtingu og styðjum við hringrásarhagkerfið.

Verkefnið er útfært og framkvæmt af ReSource International ehf., Colas, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Malbikunarstöðinni Höfða, Pure North Recycling og SORPU bs. og var styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannsóknamiðstöð Íslands, Rannís.

Sjá einnig:

https://www.resource.is/is/plastmulningur-til-betri-vega/

https://www.resource.is/is/urgangsfjollidur-i-malbiki/

https://www.resource.is/portfolio-items/plastic-recycled-in-roads-feasibility-study-on-the-use-of-plastic-waste-for-road-paving-in-icelandal-area/

Upp í vindinn. 2020. Plastúrgangur í malbik. Umhverfis og Byggingaverkfræðideild Háskóla Íslands (39 árgangur).

Guðrún Fjóla Guðmundsdóttir, 2018. Plastic Waste in Road Construction in Iceland: an Environmental Assessment. Danmarks Tekniske Universitet, DTU.