Haldin var vinnustofa í tengslum við rannsóknarverkefnið Þátttaka almennings í vöktun á svifryki sem unnið var af ReSource International og styrkt af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. Tilgangurinn var að kynna einfalda loftgæðamæla fyrir þátttakendur og leiðbeina þeim við uppsetningu og notkun á mælunum.

Vinnustofan var haldin í húsnæði Vegagerðarinnar, Suðurhrauni 3 í Garðabæ, og var hún vel sótt af sérfræðingum í loftgæðamælingum. Umsjón var í höndum umhverfisráðgjafanna Marteins Möllers og Hafliða Eiríks Guðmundssonar. Allir þátttakendur fengu mæla til að taka með sér heim, setja upp og hefja mælingar sér að kostnaðarlausu.

Marteinn Möller frà ReSource International ehf.

Svifryksmengun í nærumhverfinu mæld

Markmiðið með þessum einföldu mælum er að koma upp þéttara neti svifryksmæla um allt Ísland til þess að fá betri upplýsingar og víðari yfirsýn um svifryksmengunina í nærumhverfi almennings. Einnig nýtast þessi gögn til dæmis við rannsóknir á dreifingu svifryks um Ísland, sérstaklega hvað varðar öskufall, mengun af völdum flugelda, jarðvegsfoks eða nagladekkjanotkunar. Dýpri skilningur á mótvægisaðgerðum á borð við götuhreinsunar fengist einnig með þéttara neti mæla.

Svifryksmælirinn uppsettur

Verkefnið er framlenging á alþjóðlegu verkefni sensor.community (áður luftdaten.info). Mælarnir sem notaðir eru í þessu verkefni eru aðgengilegir og einfaldir með netviðmót sem sér um að hlaða upp mælingum sjálfvirkt og birta á vefsíðunni sensor.community. Gögnin eru þar gerð opin og aðgengileg öllum ásamt hugbúnaði og hönnun á fastbúnaði. ReSource International sá um gerð leiðbeiningabæklings á íslensku fyrir alla þá sem vilja taka þátt.