Við fengum góða heimsókn föstudaginn 23 apríl sl. í ReSource.  Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sýndi okkur þann heiður að kom til okkar með fríðu föruneyti. Hann kynnti sér starfsemina hjá Resource og sýndi viðfangsefnum okkar mikinn áhuga.

Fundarefnið var að fara yfir stöðuna í tveimur verkefnum sem Resource er að vinna að fyrir Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS). Annars vegar er um að ræða fýsileikakönnun fyrir sorporkustöð í Helguvík og hins vegar kortlagning á forsendum fyrir “Eco Industrial Park” (Grænn iðngarður) á Suðurnesjum. Þetta eru verkefni sem sprottin eru upp úr farvegi “Suðurnesjavettvangs” sem er samstarf allra sveitarfélaganna fjögurra á svæðinu auk Isavia og Kadeco (Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar).

Karl Eðvaldsson, forstjóri Resource fór yfir efnistök og þau markmið sem verkefnin stefna að og svaraði spurningum.  Jóhann Friðrik Friðriksson, formaður SSS og forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar lýsti því yfir á fundinum að mjög mikilvægt væri að bæði þessi verkefni væru í takt við stefnuáherslur stjórnvalda og sveitarfélaga í umhverfismálum, loftslagsstefnu og líka innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem ríkisstjórn Íslands samþykkti þann 28. apríl 2018.

Ráðherra sagði að hann væri afar áhugasamur um nálgun Suðurnesjavettvangs og SSS í þessum málum. Hann sagði að ráðuneytið myndi áfram fylgjast mjög vel með því sem þarna væri að gerast og væri sannfærður um að verkefnin væru í góðum farvegi og ætlaði að fylgjast vel með gangi mála.