ReSource International ehf (RSI) hefur fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði til að gera tilraunir með nýtingu úrgangsplasts sem stoðefni í malbik. Markmið verkefnisins er að meta hagkvæmni þess að nýta úrgangsplast sem nú er að mestu flutt til Svíþjóðar til endurnýtingar og endurvinnslu, sem stoðefni í malbik. Fjölmargar rannsóknir frá Indlandi og reynsla af plastblönduðum vegum þar benda til þess að þessi nýting geti verið liður í að finna plasti endurnýtingarfarveg sem leysir vandamál sem honum fylgja, þá helst fjárhagsleg og umhverfisleg. Jafnframt benda rannsóknir á að styrkur og veðurþol malbiks aukist með notkun plasts sem stoðefnis, sem getur reynst dýrmætt við íslenskar veðuraðstæður.

RSI mun einnig nýta sérþekkingu sína í mælingum og vöktun á örplasti til að meta í þaula möguleg neikvæð umhverfisáhrif vegna nýtingu plasts í vegagerð, þar á meðal rykmyndun og útskolun.

RSI mun leiða verkefnið og samstarfsaðilar eru tvö helstu fyrirtækin í malbiksframleiðslu, þ.e. Malbikunarstöðvarnar Hlaðbær Colas og Malbikunarstöðin Höfði auk SORPU og Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem rekur malbikunarsetur til mælinga á aflögun og sliti malbiks. Að auki verður lífsferilsgreining á nýtingu úrgangsplasts í vegagerð unnin af nemanda frá Tækniháskólanum í Danmörku, DTU.