ReSource er þessa dagana að vinna að því að spá fyrir um þróun úrgangs á Íslandi til ársins 2045. Mat á þróun miðast við aukna endurvinnslu og lágmörkun urðunar eins og sett er fram í stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra um meðhöndlun úrgangs.
Einblýnt er á magn og samsetningu óendurvinnanlegs úrgangs, sem í dag er urðaður, en gæti lent á milli stafs og hurðar í framtíðinni með markmiðum um lágmörkun urðaðra efna. Í kjölfarið verður gert grein fyrir magni og samsetningu óendurvinnanlegs úrgangs sem hentar í brennslu til orkuframleiðslu, fræðilega orkuframleiðslugetu, hentugar staðsetningar og umhverfisáhrif þeirra.
Undanfarið hefur ReSource International ehf. verið að skoða malbiksúrgang sem fellur til á Íslandi. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun féllu til rúmlega 42 þúsund tonn af malbiksúrgangi árið 2018 sem jafngildir um 116 tonnum á dag á hverjum degi í eitt ár.
Það eru mikil verðmæti fólgin í endurnotkun. Malbik er samsett úr hágæða steinefnum og bitumen (bindiefni) sem má endurvinna margsinnis. Þó kemur í ljós að ennþá er malbiksúrgangur ekki fullnýttur á Íslandi.
Vistferilsgreining var framkvæmd þar sem bornar voru saman niðurstöður fjögurra sviðsmynda um farveg malbiksúrgangs: endurnotað í bundið slitlag, endurunnið í burðarlag, endurnýtt í landfyllingu eða fargað á urðunarstað. Niðurstöður samanburðarins voru þær að umhverfisvænast er að endurnota malbiksúrgang í bundin slitlög, sem gefa af sér umhverfissparnað í öllum 14 áhrifaflokkum vistferilsgreiningarmódelsins. Óumhverfisvænast í samanburðinum er að farga malbiksúrgangi á urðunarstað.
Gríðalegur umhverfislegur og efnahagslegur sparnaður hlytist ef malbiksúrgangur væri endurunninn í meira magni á Íslandi.