23
maí

Lekaleit á hitaveitulögnum

ReSource framkvæmdi nýlega lekaleit á hitaveitulögn á Suðurlandi fyrir Veitur. Við framkvæmdum verkið með því að nota dróna sem bar hitamyndavél og flugum honum meðfram nokkurra kílómetra langri lögn. Í eftirlitinu fundust nokkrar mögulegar hitauppsprettur á afskekktum svæðum sem sáust ekki með berum augum. Með því að notast við þessa eftirlitstækni má minnka kostnað vegna viðgerða og viðhalds á hitaveitulögnum og koma í veg fyrir vandamál í uppsiglingu.

23
maí

Mælingar á örplasti í sigvatni frá urðunarstöðum

ReSource hefur nýlega lokið við sýnatöku fyrir örplastmælingar á tveimur urðunarstöðum á Íslandi, á Álfsnesi og í Fíflholti á Mýrum. Verkefnið er samnorrænt samstarfsverkefni milli ReSource og sænsku ráðgjafarstofunnar ÅF og er styrkt af Umhverfisstofnun Svíþjóðar. Markmið verkefnisins er að safna sigvatnssýnum frá urðunarstöðum á Norðurlöndunum og greina örplast í þeim.

ReSource hannaði og byggði búnaðinn sem verður notaður í sýnatökum og mun hann vera sendur til Noregs og Finnlands til notkunar þar. Hönnun búnaðarins byggir á nýrri nálgun í sýnatöku fyrir örplastmælingar. Sýnin eru síuð á staðnum sem gerir okkur kleift að safna stærra sýni en áður hefur þekkst, það gerir sýnatökuna áreiðanlegri og alla eftirvinnslu og greiningu auðveldari. Von er á niðurstöðum í lok þessa árs.