23
mar

Fjarvöktun á urðunarstaðnum Álfsnesi

Umhverfisverkfræðistofan ReSource International ehf. skrifaði nýlega undir þjónustusamning við SORPU bs. sem felur í sér að ReSource muni sinna reglulegum fjarvöktunarverkefnum með ómönnuðum loftförum á urðunarstaðnum á Álfsnesi. ReSource hefur nú þegar unnið með SORPU í að þróa og bæta mælingar á gassöfnun á urðunarstaðnum sem hefur skilað sér í skilvirkari söfnun á hauggasi og betri gæðum á hreinsuðu metani sem eldsneyti á bifreiðar. Þessi nýji þjónustusamningur mun færa rekstraraðilum nýjar upplýsingar sem nýtast við rekstur urðunarstaðarins og kemur einnig til með auka vísindalega þekkingu á vöktun á urðunarstöðum. Regluleg vöktun með ómönnuðum loftförum mun aðstoða rekstraraðila við að lækka rekstrarkostnað og fylgjast betur með stöðu urðunar en einnig munu gögn sem safnað verður nýtast í útgáfu vísindalegra greina. Annar þáttur í þessu samstarfi ReSource og SORPU eru rannsóknir á losun metans frá urðunarstöðum með hitamyndatöku og lasermælingum á metani.

Þetta nýja skref ReSource International og SORPU er árangur farsæls og árangursríks samstarfs hingað til og mun opna á nýja möguleika í notkun ómannaðra loftfara í umhverfisverkfræðitengdum verkefnum og úrgangsstjórnun.