25
ágú

SORPA bs. og RSI styrkja rannsóknir á aukinni verðmætasköpun og minni umhverfisáhrifum við úrgangsstjórnun

Byggðasamlagið SORPA og umhverfisverkfræðistofan RSI ehf. munu styrkja rannsóknir á sviði úrgangsstjórnunar með stóraukna endurnýtingu úrgangs að markmiði. Alls munu sex lokaverkefni á meistarastigi vera fjármögnuð og leiðsögð á tímabilinu 2017 til 2020, tvö verkefni í senn.
Nú er almennur blandaður heimilisúrgangur og skyldur úrgangur urðaður á urðunarstað höfuðborgarsvæðisins í Álfsnesi, en árið 2019 verður nánast enginn úrgangur frá heimilum urðaður, heldur endurnýttur í gas- og jarðgerðarstöð. Jafnframt verður óverulegur hluti lífræns úrgangs frá starfssvæði SORPU urðaður eftir árið 2020.
Vinnsluferli gas- og jarðgerðarstöðvar tekur á móti yfir 20.000 tonnum af lífrænum úrgangi árlega og öðru eins af ólífrænum úrgangi. Vinnsluferlið skilar metani sem ökutækjaeldsneyti, moltu/​jarðvegsbæti til áburðar eða landgræðslu ásamt t.a.m. plasti sem verður efnisendurunnið eða breytt í fast eða fljótandi eldsneyti.

Smelltu hér fyrir meira upplýsingar.