Í síðustu viku fékk ReSource International góða gesti frá Asóreyjum, þau Francisco S. Fernandes, forstjóra byggingartæknirannsóknarstofu Asóreyja, Catarinu Amaral, rannsakanda hjá sömu stofnun, og Raquel Galante, verkfræðing og rannsakanda hjá CIMPA. 

ReSource hefur unnið með hópnum samstarfsverkefnið Rebuild17. Verkefnið miðar að því að hámarka nýtingu byggingar- og niðurrifsúrgangs á Asóreyjum með hringrásarhagkerfislausnum. M.a. verður vefmarkaðstorg fyrir byggingarúrgang hleypt af stokkunum innan skamms. Einnig hefur hópurinn þróað flot fyrir gólf, steypu og spónaplötur sem nýta byggingarúrgang. 

Hópurinn ásamt Hafliða Eiríki Guðmundssyni umhverfisráðgjafa ReSource heimsótti ýmsa staði sem tengjast hringrásarhagkerfinu. Hjá Pure North Recycling kynntu þau sér hvernig jarðhiti getur nýst við plastendurvinnslu. Hópurinn fundaði með Guðlaugi Þór Þórðarsyni umhverfis- orku og loftslagsráðherra ásamt því að heimsækja Malbikstöðina, Arctic Plank, Hellisheiðarvirkjun og Sorpu. Ýmsar hugmyndir spruttu í heimsóknunum, svo sem samstarfsmöguleikar og leiðir til að nýta asórskt og íslenskt hugvit í sitthvoru landinu. 

Hópurinn fór heim og er nú í óða önn að undirbúa ráðstefnu um byggingar- og niðurrifsúrgang sem haldin verður í lok október á eyjunni San Miguel þar sem höfuðstaður Asóreyja er staðsettur.